154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:50]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þetta. Ég er þeirrar skoðunar að svona mikil skattahækkun á bankana myndi ofur einfaldlega verða til þess að þeir færu bara út í hærri vexti og hærri þjónustugjöld og bankarnir næðu hækkuninni þar til baka. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á óbeint í raun og veru í svari sínu. Við erum auðvitað hér með fákeppnisumhverfi á bankamarkaði sem gerir vald okkar neytenda minna heldur en væri ef samkeppnin væri virkari.

Þá kem ég að öðrum hlut sem hv. þingmaður kom að í ræðu sinni sem er nákvæmlega þetta vaxtastig sem við búum við, sem er bein afleiðing af minni samkeppni á fjármálamarkaði og líka þess að við erum hér með lítinn gjaldmiðil sem sveiflast meira og við borgum hærri vexti, miklu hærri vexti á lengri tímabilum og búum við hærri verðbólgu á lengri tímabilum heldur en löndin í kringum okkur. Ég er ekki að tala um lönd í Evrópusambandinu á borð við Grikkland, Ítalíu eða þau sem eru syðst í álfunni, ég er bara að tala um nágrannalöndin okkar. Mér fannst hv. þingmaður skauta svolítið fram hjá þessu í sinni ræðu, að þarna erum við auðvitað með mikla meinsemd í íslensku samfélagi sem kostar fólk og ekki síst þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu alveg gríðarlegar fjárhæðir. Hv. þingmaður var að velta vöngum yfir því af hverju það væri ekkert verið að skoða þetta og greina. Við höfum tekið undir að það verði gerð óháð úttekt á kostum og göllum krónunnar af erlendum sérfræðingum. Þessu hefur verkalýðshreyfingin verið að berjast fyrir, a.m.k. hluti hennar. Ég veit alveg að niðurstaðan verður sú að það er okkur ekki hagfellt að vera með þennan litla gjaldmiðil. Ég er pínulítið að vonast til þess að í Flokki fólksins myndist kannski pínulítil opnun á það að það gæti verið gott að stíga eitthvert skref (Forseti hringir.) til þess að losa okkur við gjaldmiðilinn sem er að setja hér allt í kaldakol með reglulegu millibili og óska ég eftir liðsinni hv. þingmanns í þeirri baráttu. Það myndi gagnast vel þeim sem höllustum fæti standa.